Maraþon í London 2010

London maraþon 2010-04-25

Undirbúningurinn hafði alls ekki gengið skv áætlun.  Var í góðum gír framan af vetri en svo kom tími tognunar aftan í læri og eftir áramót nýjar starfskyldur sem skáru verulega af tímunum mínum.  Þar við bættist að tvær lengstu æfingarnar höfðu báðar endað í leiðinda magaverk sem ég kunni enga skýringu á.  Svo byrjaði að gjósa í Eyjafjallajökli og flug í Evrópu lagðist af.  Með aðeins viku til stefnu voru flugvellir í London lokaðir og alls óvíst hvenær yrðu opnaðir að nýju.Síðasta helgaræfing var laugardag viku fyrir hlaup með Eyrarskokki.  Góð mæting var og ákveðið að hlaupa upp að mastri á gamla Vaðlaheiðarveginum.  Flestir fóru frá útsýnispallinum austanmegin og voru þetta rúmir 7 km hvora leið.  Ég fór afar rólega  og stoppaði nokkrum sinnum því síst af öllu vildi ég sitja uppi með einhverja þreytuverki fram í næstu viku.  Annars gekk æfingin vel, mér fannst ég frekar léttur og hafa góðan styrk.Síðan tóku við 3 annasamir vinnudagar þar sem mér tókst þó að fara einu sinni 7 km á léttu róli.Sumardagurinn fyrsti rann upp og búið að opna flugvellina í Evrópu, þannig að ekkert var að vanbúnaði.  Frúin var að fara í „saumabústað“ við Hreðavatn svo við keyrðum þangað og Valur strákurinn okkar, háskólaneminn sísvangi sótti mig síðan og keyrði í bæinn. Áleiðinni pantaði ég borð fyrir okkur á ítölskum veitingastað um kvöldið.  Nú skyldi pastahleðslan hefjast.Eyddi deginum hjá mömmu en ákvað seinni partinn að taka smá skokk í Mosó.  Fór um 8 km .  steig á vigtina á eftir í fyrsta sinn í 3 mánuði.  Þunglyndi.Ég horfi á fréttirnar 18:30 og þá kemur í ljós að vindátt muni breytast á morgun svo flugi hefur verið flýtt til kl 05:00.  Nú jæja ekki mikill svefn í nótt en það er svo sem ekkert nýtt.Áleiðinni niður í bæ að sækja Val fyrir kvöldmat hringir síminn.  Flugfélagið að láta vita að fluginu hafi verið flýtt enn meira og skul í loftið kl 23:00.  Pastaveislan því blásin af og sukkað í næsta KFC og síðan skutlar Valur mér til Keflavíkur.  Innritunin gengur snurðulaust fyrir sig og í flugstöðinni nota ég tímann og panta hótelherbergi á Gatwick fyri nóttina.  Hringi einnig á hótelið og segi þeim ég komi seint og fæ leiðbeiningar fyrir hótelskutluna.Svo förum við ó loftið og þá tilkynnir flugstjórinn að hann þurfi að fljúga norðan við gosið í átt að Egilstöðum áður en sveigt verði í suður til London, þannig að flugtíminn muni lengjast.  Ég hafði svo sem ekki reiknað með að sofa mikið þessa nótt.Við lendum um 3:30 um nóttina á staðartíma.  Og viti menn að það virtist sem enginn hefði tilkynnt að það væri að koma flug frá Íslandi um miðja nótt og þar sem báðir flugvallarstarfsmennirnir á v akt voru uppteknir við eitthvað annað þurftum við að bíða í reyðileysi svolitla stund áður en vélin gat lagst að og hleypt okkur út.Fengum töskurnar tiltölulega fljótt og skutlan kom mér á hótelið um kl 4:30.Ágætis herbergi en ég svaf þó bara nokkra dúra. Kom mér í morgunmat um kl 9 og fór svo með Gatwick express til London um kl 11:00.  Fann hótelið sem reyndist reyndar dreifast á nokkur hús við götuna.  Tveir ungir bræður voru þarna allt í öllu.  Sennilega fjölskyldufyrirtæki.Herbergið örsmátt en þrifalegt utan þessi skrýtna lykt sem kemur stundum af þessum teppalögðu herbergjum í Englandi og mér finnst ekki viðkunnanleg en hún venst fljótleg.Skellti mér á Excel sýninguna.  Risastórt svæði uppfullt af ólíklegasta varningi sem maður hefur ekki þörf fyrir en verður að fá.  Keypti langerma London maraþon 2010 hlaupabol og Asics Kayano 16 skó sem é fékk á 108 pund sem er um 2/3 af verðinu heima.  Fékk í kaupbæti hlaupabol og buxur frá Asics sem ég tók í stærð fyrir Erlu mína.  Fór svo í pastaveisluna á svæðinu en sá svolítið eftir því.  Fannst þetta bara la la. Fór síðan með dótið upp á hótel.Seinnipartinn tók ég neðanjarðarlestina niður í bæ.  Ath með sýningar og fékk We will rock you á hálfvirði.  Svaka stuð á sýningunni , meir en þegar ég fór fyrst.Svo var bara heim í bælið.Svaf eins og steinn alla nóttina og vaknaði ekki fyrr en rúmlega sjö.  Þá heyrði ég að það var eins og hellt væri úr fötu úti.  Hafði verið að spá í stutt morgunhlaup, þrátt fyrir að allir segi að það sé alger óþarfi.  Maður dettur ekki úr æfingu á 3-4 dögum og betra er að vera hvíldur fyrir langa hlaupið.>Rigningin latti mig sem sagt og ég lataði mig fram til um 8:30 er ég fór í morgunmat.  Leit þá út um gluggann og viti menn það var sko engin rigning heldur glaðasólskin og blíða.  Vatnsrennslið sem ég heyrði hafði því komið einhver staðar annars staðar frá.  Jæja morgunhlaupinu var allavega sleppt.Eftir morgunmat skellti ég mér semsagt í bæinn aftur og til að vera ekki að labba allt of mikið ákvað ég að fara í skoðunarferð með tveggja hæða strætisvögnunum.  Hef farið þetta áður og maður sér og lærir alltaf eitthvað nýtt. Stökk út við Trafalgar torg og sá þar miðasölustað sem seldi meðal annars miða á knattspyrnuleiki.  Jæja  kallinn einn á ferð og gerir það sem honum dettur í hug og dreif mig inn og spurði hvort einhver leikur væri seinnipartinn. Ó jú Arsenal á Emirates. Já sæll og hvað kostar miðinn?  Hundrað og áttatíu svaraði kallinn og glotti.  Pund? spurði ég eins og fífl þegar ég gat losað neðri kjálkann úr bringuhárunum.  Ó já.  Það yrði sem sagt að verða eitthvað annað sem ég hefði fyrir stafni þetta síðdegið.  Ákvað að snúa aftur til hótelsins  og koma við  í risastórum verslunarkjarna sem er rétt hjá.  Þar fékk ég mér fyrst að borða, tvíréttað pasta og kjúkling.  Mildur og góður matur.  Fór síðan og verslaði sólarvörn, orkuskot og tvo pólóboli á Erlu í GAP.  Sendi SMS með mynd af bolunum til Steinu sem leist vel á.Skellti mér aftur í bæinn seinnipartinn og ath með sýningar og fékk miða á Sister act á góðu verði.  Sýningin ágæt en var svolítið að endurtaka sig.Svo var bara koma sér í háttinn.Vaknaði keppnisdaginn að sjálfsögðu löngu áður en klukkan hringdi, en hafði sofið sem steinn um nóttina.  Ætlaði í morgunmat 7:30 en þá var ekki búið að opna.  Gerði ekkert til því ég átti upp á herbergi banana, orkubar og jógúrt.  Svo var bara að setja vaselín á rétta staði og klæða sig.  Ákvað að hlaupa í nýju skónum þar sem þeir voru með meiri dempun en þeir sem ég hafði tekið með mér.  Tók þarna nokkra áhættu að byrja notkun á nýjum skóm með 42 km hlaupi.Út í neðanjarðarlest og þar sé ég aðra keppendur og ákveð að fylgja þeim.  Fólk spjallar við ókunnuga þegar það sér að er samkeppandi.  Stemmingin er blanda af spenningi, kvíða og ánægju.Þegar við erum kominn á endastöð og stígum út þá er komin rigning, eiginlega hellidemba.  Þóttist góður að hafa tekið nýja regnjakkann með.Vaxandi eftirvænting þessar 15 mínútur sem tók að ganga að rásmarkinu .  Stutt viðkoma með aftöppun og eitt orkuskot .Í röðinni á rásstað var létt yfir fólki .  Menn ræddu eldri sigra og hvers þeir væntu í dag.  Margir í furðufötum .  Sherlock Holm og Watson , bjórdós og nunna í minipilsi svo eitthvað sé nefnt.Nú hætti að rigna en heitt var í veðri og raki í lofti.  Ekki mín tegund af hlaupaveðriSvo kom startið.  Ekkert dramatískt þar sem við vorum drjúgan spöl frá startlínunni en sáum þetta á stórum skjá.  Klapp og hvatningarhróp þegar röðin fór af stað.  Gönguhraði til að byrja með en smám saman jókst hraðinn í létt skokk og að lokum eðlilegan hlaupahraða.   Allt í einu stöðvaðist nánast hlaupið en þarna hafði gatan þrengst og smástund vorum við á gönguhraða en svo rann allt af stað aftur.  Það voru breiðar brautir að mestu svo maður fann ekki mikið fyrir þrengslum en best var að fylgja þeim hraða sem massinn var á því annars þurfti endalaust að vera í svigi fram og aftur og ég vissi af fyrri hlaupum að það tekur orku.  Fyrsta mílumerkið birtist og manni fannst maður varla byrjaður.  Fann ekki fyrir neinum eymslum og leið satt að segja frábærlega.  Fyrsta vatnsstöð var við 3 mílur og ég greip eina flösku.  Þetta eru 33 cl vatnsflöskur með stút svo maður gat haldið áfram að hlaupa og tekið litla sopa. Snilld.Skyndilega rann maður í gegn um 5 km merkið og manni fannst maður rétt byrjaður.  Varla farinn að hitna.  >Rúllaði nú áfram á paci milli 5:30 og 5:47 og það var fyrst og fremst þeir sem í kringum mig voru sem réðu .  Var lítið að taka fram úr og ekki nema einstaka hlauparar sem fóru fram úr mér.  Reyndar merkilegt hvað ég sá oft 5:47 í pace þegar ég leit á Garmininn fyrri hluta hlaupsins.Við 10 km leið mér aldrei betur.  Þetta virtist ætla að rúlla áreynslulaust áfram en ég svo sem vissi að sú sæla myndi ekki vara að eilífu.Við 15 km fékk ég mér orkugel en ég hafði reynt að grípa vatn á nánast hverri mílu og drekka um hálfa flösku.   Smá verkur fór að gera vart við sig í hægra hné en ég hef stundum fengið svona áður og oftast hverfur þetta eftir smá tíma.  Svo var einnig núna.Við hálft maraþon merkið var maður byrjaður að finna að þetta var farið að taka í.  Aðallega virtist það vera orkubúskapurinn því ég var léttur og eymslalaus í fótum og leið alveg bærilega.  Um þetta leyti er maður að fara yfir Tower bridge og skömmu síðar mætir maður hlaupurum sem eru búnir að fara stóra lykkju sunnan við ánna og eru á feikna hraða.  Sennilega um 2:30 menn.Það var alltaf í kollinum á mér hversu  skyndilega ég rakst á vegg við 28 km í Berlín og ég var farinn að bíða eftir því.  Þá skyndilega við 27 km fer ég að fá magaverkinn sem hafði gert vart við sig á löngu æfingunum.  Nú voru góð ráð dýr því hingað til hafði ég ekki getað hlaupið þetta af mér.  Ég sé kamra við brautina og ákveð að láta slag standa.  Þetta kostar nokkra mínútur en mér leið strax beturí maganum.  Planið hafði verið að komast 30 km og þá myndi ég reyna að klára með því að ganga 100 m  af hverjum km.  Fyrstu 3 km voru samt svo léttir að ég hljóp mílu og gekk 150 metra en svo fór þetta að þyngjast .  Ég var fyrst og fremst orkulaus sama hvað ég reyndi að troða í mig en fann lítið fyrir þreytu í fótum.  Greinilegt nudd hafði þó verið á hæ litlutá en ekki til stórra vandræða.  Síðustu km lét ég eftir mér að ganga þegar mér fannst þörf krefjast en helst ekki meir en 100 m í einu og hlaupa síðan af stað.  Forðaðist að stoppa.  Einhvern tímann við 30 km hafði Garmin tækið misst úr ca 2 km svo það var ekki lengur að marka en mílumerkin voru það sem skipti máli.  Eftir sem nær dró endamarkinu virtist áhorfendum fjölga og hvatningarhrópin þeirra urðu ákafari. Samt er einhvern veginn eins og umhverfið fjarlægist á einhvern hátt og maður einbeitir sér að því að telja huganum trú um að maður geti haldið áfram þrátt fyrir að orkubirgðirnar séu á þrotum.  Það er alltaf til eitt skref enn.  Það voru líka fleiri og fleiri hlauparar sem þurftu aðstoð og ég held ég hafi séð um 5 þeirra borna af brautinni í sjúkrabörum.  Allt í einu blasir við skilti sem segir að það séu 800 m eftir svo 600 og 400 m.  Þá kemur beygja á brautina og í beygjunni er skilti sem segir að einungis 200 m séu eftir.  Það eru ekki erfið spor.  Þegar yfir marklínuna er stigið kemst bara eitt að:  Ég gat það. Í raun er þetta svona einfalt. Það er þessi tilfinning  að hafa gert eitthvað  sérstakt.  Það skiptir engu máli að fleiri tugir þúsunda annarra höfðu líka lokið hlaupinu, það er jafnlangt fyrir alla og þetta hefur maður gert svikalaust.  Það hleypur enginn fyrir mann og hversu góður sem stuðningur áhorfenda er þá er hvet skref þitt eigið. Tíminn 4:33 ekkert að hrópa húrra fyrir en ég hafði löngu ákveðið að reyna að njóta hlaupsins frekar en að vera að keppast við tímann.  Enda leið mér bara stórvel nánast allan tímann og var alls ekki að niðurlotum kominn í lokinn.  Enginn krampi í fótum eins og í Berlín og átti létt með að þramma tröppurnar í neðanjarðarlestinni á eftirÞegar ég hafði fengið verðlaunapeninginn um hálsinn og skilað rafmerkinu (þeir létu mann ganga yfir brú þar sem sátu neðan við starfsmenn með tangir og klipptu af merkin svo maður þurfti ekki að beygja sig, snilld) náði ég í dótið mitt og tók neðanjarðarlestina á hótelið.  Var á leiðinni að hugsa um Laugavegshlaupið sem ég er skráður í í sumar.  Átti ég 13 km inni þegar ég kom í mark? Varla.En koma tímar og koma ráð J


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skemmtileg lesning.  Hvað varðar Laugaveginn þá finnst  mér hann mun léttari en marathon einfaldlega vegna þess að  það er svo mikið gengið þ.e. allar brekkur. 

Þannig að fyrst þú kláraðir London maraþon þá áttu að rúlla upp Laugaveginum:) K

Kveðja frá Norge

Börkur (IP-tala skráð) 1.5.2010 kl. 16:58

2 identicon

Frábært.  Margir góðir punktar... nunna í mínípilsi... hmm.. ég á hlaupapils :)  Sammála Berki.  Laugavegurinn er allt öðruvísi en malbiksmaraþon.  En, ertu ekki að innbyrða of mikinn vökva?  Það er vel hægt sko.

Fríða (IP-tala skráð) 1.5.2010 kl. 18:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Einar Sigurðsson

Höfundur

Sigurður Einar Sigurðsson
Sigurður Einar Sigurðsson

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ses
  • Ánægð í marki
  • Eftir Brekkuna
  • Skautahallarbrekkan í sunnastrekkingi
  • Lagt á ráðin

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband